Úreltar Aðferðir #1 – Hljóðbylgjur

Í þessari seríu fjalla ég um úreltar og afsannaðar aðferðir sjúkraþjálfara sem enn eru í notkun. Endilega lesið innganginn fyrir þessa seríu ef þið hafið ekki nú þegar gert það.

Það er mjög viðeigandi að hefja þessa seríu á hljóðbylgjum, því þær hafa verið ræddar talsvert á Twitter undanfarið. Uppruni þeirra er í seinni heimsstyrjöldinni þegar menn komust að því að hljóðbylgjurnar notaðar í hernaðarskyni gátu hitað sjó og drepið í honum fiska. Menn fóru þá að nota hljóðbylgjur á mannavefi í þeirri von að stuðla að gróanda í vefjum.

Hljóðbylgjur hita vefi og þar af leiðandi auka blóðflæði. Þær auka virkni frumna og hraða efnaskiptum staðbundið. Hljómar vel á pappír svo sem, en er það skortur á blóðflæði sem hamlar gróandanum? Eru hljóðbylgjur besta leiðin til að auka blóðflæði til vefja? Almenn líkamsrækt, að hækka púlsinn, eykur efnaskiptahraða og blóðflæði til vefja. Gufubað hitar allan mannslíkamann en ekki eingöngu svæði á stærð við tíkall um 2-5cm fyrir neðan húð (1) . Hvers vegna ætti að nota hljóðbylgjur í 20 mínútur fyrir 5000 kr, þegar tími í sund með heitum potti og gufubaði kostar brotabrot af verðinu?

Klínískar rannsóknir og leiðbeiningar á hljóðbylgjum á manneskjum

Undanfarin ár hafa rannsóknir á hljóðbylgjum færst út í að skoða fjölbreyttari möguleika til að koma meira og meira af bylgjum í fólk, ýmist á styttri tíma (höggbylgjur) eða á lengri tíma (áfastir sjálfvirkir hljóðbylgjuhausar). Þessi þróun er trúlega til komin vegna þess að klínískar rannsóknir hafa ekki stutt við notkun hljóðbylgna.

Bestu sannanir sem eiga að leiðbeina klínísku starfi sjúkraþjálfara eru kerfisbundnar skoðanir (e. systematic review) og klínískar leiðbeiningar, þær síðari eru útbúnar í þeim tilgangi að bæta starf heilbrigðisstarfsfólks en þær fyrri til að draga saman niðurstöður margra rannsókna í eina stærri rannsókn.

Gerðar hafa verið kerfisbundnar athuganir á notagildi hljóðbylgna við algengum axlarmeinum, algengum hnéverkjum, og mjóbaksverkjum. Þær voru allar sammála um að notagildið er ekkert við þessum vandamálum (2, 3, 4).

Bandaríska sjúkraþjálfarafélagið gaf árið 2012 út ítarlegar vísindalega miðaðar klínískar leiðbeiningar um meðferð mjóbaksverkja. Þær minnast ekki einusinni á hljóðbylgjur (5) . Ráðleggingar breska sambandsins  um axlarmein taka fram að hljóðbylgjur geti hjálpað við kölkuðum sinum til skamms og millilangs tíma séu þær notaðar daglega í 3 vikur, og annan hvern dag í aðrar 3 vikur. Þetta gera 24 heimsóknir á 6 vikum sem myndu kosta yfir 90.000 kr, og óljóst hvaða áhrif þetta hefur á verki og starfsemi axlarinnar (6).

Rannsóknir sem styðja við notkun hljóðbylgna

Rannsóknir á dýrum eru gjarnan notaðar til að sýna fram á notagildi hljóðbylgna sem meðferðarform. Ein nýleg rannsókn skoðar áhrif hljóðbylgna á gróanda í vöðva sem skorinn er í sundur á mús. Gögn þeirra sýna fram á jákvæð áhrif þar sem lengri meðferðartími (fleiri dagar) hefur stigvaxandi jákvæð áhrif á styrk vöðvans 28 dögum eftir skaða (7). Gallinn við þessa rannsókn, er að tímaramminn (28 dagar) er talsvert styttri heldur en vanalegur tími gróanda fyrir áverka af þessari tegund, sem er amk 50 dagar í mús og lengist eftir því sem dýrið stækkar (8). Einnig er ekki skoðað hvernig vöðvinn jafnar sig í teygju, eingöngu í samdrætti og eingöngu í rannsóknarstofu eftir að dýrinu er fórnað. Rannsóknir á dýrum þar sem um beinan skaða, sár og skurði, er að ræða hafa almennt sýnt fram á besta árangur hljóðbylgna. Yfirleitt er þá um einhverja daga af tímasparnaði að ræða og krefst stífrar meðferðar daglega með aðkomu sérþjálfaðs meðferðaraðila. Skaðar af þessari tegund eru óalgengir og eiga sér stað í slysum eins og bílslysum og vinnuslysum en sjaldnar í íþróttum. Svona rannsóknir geta gefið vísbendingar um virkni en eru ekki fullnægjandi til að hefja notkun á fólki.

Aðrar leiðir eru færar til að flýta fyrir bata eftir að vöðvi er skorinn í sundur, t.d. lyf og æfingar (9). Rannsókn sem vill sýna fram á notagildi hljóðbylgna þarf að hafa samanburðarhóp við aðrar virkar meðferðir, svo hægt sé að meta gæði meðferðar samanborið við aðra. Teygjur og æfingar vinna þennan samanburð, þær eru einfaldari, ódýrari og áhrifaríkari  heldur en hljóðbylgjur þar sem ef báðar meðferðir eru veittar samhliða er enginn munur á útkomunni (10).

Gróandi í vef er sjaldnast takmarkandi þáttur þegar kemur að viðskiptavinum sjúkraþjálfara. Meginþorri viðskiptavinanna er ekki að kljást við skammtíma afleiðingar af beinum skaða eins og þessar rannsóknir skoða, heldur afleiðingar af langvarandi álagi umfram burðarþol vefja. Vandamál sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt með ferlinu sem verið er að skoða í músunum.

Niðurstöður: Eigi hljóðbylgjur að gagnast þarf meðferðin að vera a.m.k. daglega í 20 mín á dag, og áhrif meðferðarinnar haldast lítið eða ekki til lengri tíma. Ef tilgangurinn er ekki að vinna á kölkuðum sinumsem krefst stífrar daglegrar meðferðar með óljósan langtímaárangur er betra að spara tíma sinn og peninga og skella sér bara í sund og gufuna eða pottinn.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s