Hnykkingar – Eru hnykkingar nákvæmnisvinna?

Mér er minnistæð ein saga af fagaðila sem var að meta hreyfanleika hryggjarliða með þrýstingi þegar small í úlnlið fagaðilans. Við smellinn heyrðist í viðskiptavininum “ahhh…akkúrat það sem mig vantaði”. Hvort sem sagan er sönn eða ekki, þá eru hnykkingar gríðarlega vinsælt meðferðarform á Íslandi og því miður margir sem rugla saman vinsældum og gagnsemi.

Í mínu starfi hef ég hitt marga einstaklinga sem hafa misgóðar reynslur af hnykkmeðferðum, hvort sem það er frá kírópraktorum, sjúkraþjálfurum, eða hefðbundnum asískum meðferðaraðilum. Margir þeirra hafa farið ótalmörgum sinnum til hnykkjara og eytt í það gríðarmiklum peningum án þess að fá út úr því neinn bata. Sumir eru óvissir um hvort meðferðin hafi skilað sér, en aðrir eru fullvissir um að meðferðin hafi verið gagnleg.

Eðli málsins vegna eru fjölmargar mýtur til um hvað hægt sé að gera með hnykkingum. Ég ætla að fara hér yfir rannsóknir á eðli hnykkinga, hve nákvæmar þær eru, hvort þær geti breytt stöðu hryggjarliða, og hvort máli skipti að velja rétta hnykkingu.

Hnykkingar eru ekki nákvæmar

Margir telja að hægt sé að hafa mikil áhrif á staðsetningu hnykkingarinnar með ýmsum leiðum. T.d. eru dæmi um að hnykkja eigi “framhjá” brjósklosum með því að staðsetja meðferðina rétt. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar sem meta að hve miklu leiti hægt er að stýra hnykkingum, má þar helst nefna rannsóknir þar sem víbringsnemar mæla hljóðið sem kemur af hnykkingunni og staðsetja með þeim hætti hvaðan það kemur. Niðurstöður slíkra rannsókna eru að í mjóbaki lenda eingöngu um helmingurinn af hnykkingunum á réttum hryggjarlið þrátt fyrir að flestar hnykkingar hnykki fleirum en einum hryggjarlið. Í brjóstbaki var betri nákvæmni og var rétt yfir helmingurinn á réttum stað (1). Ef skilgreina má þrjá hryggjarliði sem “skotmarkið”, batnar nákvæmni hnykkinga upp í um 70% (2), og nokkuð víst að hægt sé að stýra hnykkingunni amk á rétta líkamshlið (hægri / vinstri). Þrír hryggjarliðir eru þá eingöngu helmingurinn af mjóbakinu, svo það er hægt með um 70% vissu að vita hvort maður sé að hnykkja efra eða neðra mjóbaki, en eingöngu um 50% líkur vilji maður hnykkja ákveðnum hryggjarlið. Vilji maður *ekki* hnykkja ákveðnum hryggjarlið (t.d. vegna brjóskloss) er engin leið að vita hvort það takist öðruvísi en að hnykkja engum lið í a.m.k. 3 hryggjarliði í hvora átt.

Hnykkingar breyta ekki stöðu liða

Stundum eru röntgenmyndir notaðar til að stýra hnykkmeðferð. Er þá verið að leitast eftir “skekkjum” á stöðu hryggjarins til að leiðrétta með hnykkingu. Mér finnst alltaf sniðugt að meðferðaraðilar sjái ekkert að því að taka röntgen mynd til greiningar, en þegar kemur að því að taka aðra mynd og sjá breytingu eftir hnykkinguna er allt í einu röntgenmyndin orðin of mikil geislun….

En ekki allir  kippa sér upp við að taka tvær röntgen myndir til að sjá að spjaldliðshnykkingar breyta ekki stöðu spjaldliðs. Stöðupróf voru notuð og sýndu afbrigðilega stöðu fyrir meðferð en eðlilega stöðu eftir meðferð án þess að staða spjaldliðanna sé breytt. Það er því opin spurning hvað þessi stöðupróf séu raunverulega að meta (3).

Ekki eru til sambærilegar rannsóknir á breytingum á stöðu mjóhryggs. Það næsta sem kemst því er rannsókn sem notaði segulómskoðun (MRI) til að meta stærð liðbils smáliða í hrygg fyrir og eftir hnykkingu. Rannsóknin tók segulómmyndina strax eftir hnykkinguna, án þess að manneskjan væri einusinni búin að standa upp af bekknum áður, og því óljóst hvort sú breyting sem þeir fundu hefði einhverja þýðingu (4).

Þursabit, þar sem skyndilegt tak kemur í mjóbak og kemur í veg fyrir ákveðnar hreyfingar, er mjög sársaukafullt ástand. Engin skýring er fundin á því hver ástæðan fyrir skerðingu á hreyfigetu er í þursabiti þó einhverjar kenningar séu á lofti og þar af leiðandi eru heldur engar rannsóknir á því hvort hnykkingar breyti einhverju í stöðu hryggjarins undir kringumstæðunum. Það er því ekkert til fyrirstöðu að prufa hnykkingar gegn þursabitum.

Það þarf ekki að velja rétta hnykkingu með nákvæmri skoðun

Yfirlitsgrein (5) sem skoðaði muninn á þegar meðferðaraðilar velja hnykkingu eða þegar hnykking er valin fyrirfram af rannsakanda fann engann mun á milli meðferða. Niðurstaðan bendir til að aðferð hnykkingarinnar skipti ekki máli. Hálsrannsókn fann ekki samræmi milli mældrar hreyfigetu milli hálsliða og hvaða hálsliða meðferðaraðila þótti stífur, svo að skoðun sem byggir á að finna slíkann mun er trúlega ekki áreiðanleg hvort eð er (6). Ég hef áður fjallað um hvort hægt sé að þreifa mis-stífa hryggjarliði út með höndunum eða öðrum aðferðum, stutta svarið er nei en langa svarið er hér. Ljóst er að slíkar aðferðir geta ólíklega stýrt vali á hnykkingarmeðferð.

—————————–

Þessar þrjár ranghugmyndir eru uppspretta slatta af kenningum í hnykklækningum sem miða að því að finna réttu hnykkinguna fyrir réttu manneskjuna. Það er þó ekkert sem styður við þetta annað en árhundruðir af hefðum og pælingum. Einungis nýlega hefur verið mögulegt að rannsaka þessar aðferðir með fullnægjandi hætti, en allar niðurstöður benda til hins sama: ætli maður sér að hnykkja þá getur maður bara hnykkt án þess að til þess komi skoðun eða greining.

Í næstu grein ætla ég að skoða áhrif hnykkinga á starfsemi líkamans, og hvort ástæða sé til að nota þær við meðferð. Í þriðja hluta mun ég fjalla um rannsóknir á áhrifum hnykkinga á bakverki.

3 athugasemdir við “Hnykkingar – Eru hnykkingar nákvæmnisvinna?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s