Hnykkingar – Eru hnykkingar nákvæmnisvinna?

Mér er minnistæð ein saga af fagaðila sem var að meta hreyfanleika hryggjarliða með þrýstingi þegar small í úlnlið fagaðilans. Við smellinn heyrðist í viðskiptavininum “ahhh…akkúrat það sem mig vantaði”. Hvort sem sagan er sönn eða ekki, þá eru hnykkingar gríðarlega vinsælt meðferðarform á Íslandi og því miður margir sem rugla saman vinsældum og gagnsemi.

Í mínu starfi hef ég hitt marga einstaklinga sem hafa misgóðar reynslur af hnykkmeðferðum, hvort sem það er frá kírópraktorum, sjúkraþjálfurum, eða hefðbundnum asískum meðferðaraðilum. Margir þeirra hafa farið ótalmörgum sinnum til hnykkjara og eytt í það gríðarmiklum peningum án þess að fá út úr því neinn bata. Sumir eru óvissir um hvort meðferðin hafi skilað sér, en aðrir eru fullvissir um að meðferðin hafi verið gagnleg.

Eðli málsins vegna eru fjölmargar mýtur til um hvað hægt sé að gera með hnykkingum. Ég ætla að fara hér yfir rannsóknir á eðli hnykkinga, hve nákvæmar þær eru, hvort þær geti breytt stöðu hryggjarliða, og hvort máli skipti að velja rétta hnykkingu.

Hnykkingar eru ekki nákvæmar

Margir telja að hægt sé að hafa mikil áhrif á staðsetningu hnykkingarinnar með ýmsum leiðum. T.d. eru dæmi um að hnykkja eigi “framhjá” brjósklosum með því að staðsetja meðferðina rétt. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar sem meta að hve miklu leiti hægt er að stýra hnykkingum, má þar helst nefna rannsóknir þar sem víbringsnemar mæla hljóðið sem kemur af hnykkingunni og staðsetja með þeim hætti hvaðan það kemur. Niðurstöður slíkra rannsókna eru að í mjóbaki lenda eingöngu um helmingurinn af hnykkingunum á réttum hryggjarlið þrátt fyrir að flestar hnykkingar hnykki fleirum en einum hryggjarlið. Í brjóstbaki var betri nákvæmni og var rétt yfir helmingurinn á réttum stað (1). Ef skilgreina má þrjá hryggjarliði sem “skotmarkið”, batnar nákvæmni hnykkinga upp í um 70% (2), og nokkuð víst að hægt sé að stýra hnykkingunni amk á rétta líkamshlið (hægri / vinstri). Þrír hryggjarliðir eru þá eingöngu helmingurinn af mjóbakinu, svo það er hægt með um 70% vissu að vita hvort maður sé að hnykkja efra eða neðra mjóbaki, en eingöngu um 50% líkur vilji maður hnykkja ákveðnum hryggjarlið. Vilji maður *ekki* hnykkja ákveðnum hryggjarlið (t.d. vegna brjóskloss) er engin leið að vita hvort það takist öðruvísi en að hnykkja engum lið í a.m.k. 3 hryggjarliði í hvora átt.

Hnykkingar breyta ekki stöðu liða

Stundum eru röntgenmyndir notaðar til að stýra hnykkmeðferð. Er þá verið að leitast eftir “skekkjum” á stöðu hryggjarins til að leiðrétta með hnykkingu. Mér finnst alltaf sniðugt að meðferðaraðilar sjái ekkert að því að taka röntgen mynd til greiningar, en þegar kemur að því að taka aðra mynd og sjá breytingu eftir hnykkinguna er allt í einu röntgenmyndin orðin of mikil geislun….

En ekki allir  kippa sér upp við að taka tvær röntgen myndir til að sjá að spjaldliðshnykkingar breyta ekki stöðu spjaldliðs. Stöðupróf voru notuð og sýndu afbrigðilega stöðu fyrir meðferð en eðlilega stöðu eftir meðferð án þess að staða spjaldliðanna sé breytt. Það er því opin spurning hvað þessi stöðupróf séu raunverulega að meta (3).

Ekki eru til sambærilegar rannsóknir á breytingum á stöðu mjóhryggs. Það næsta sem kemst því er rannsókn sem notaði segulómskoðun (MRI) til að meta stærð liðbils smáliða í hrygg fyrir og eftir hnykkingu. Rannsóknin tók segulómmyndina strax eftir hnykkinguna, án þess að manneskjan væri einusinni búin að standa upp af bekknum áður, og því óljóst hvort sú breyting sem þeir fundu hefði einhverja þýðingu (4).

Þursabit, þar sem skyndilegt tak kemur í mjóbak og kemur í veg fyrir ákveðnar hreyfingar, er mjög sársaukafullt ástand. Engin skýring er fundin á því hver ástæðan fyrir skerðingu á hreyfigetu er í þursabiti þó einhverjar kenningar séu á lofti og þar af leiðandi eru heldur engar rannsóknir á því hvort hnykkingar breyti einhverju í stöðu hryggjarins undir kringumstæðunum. Það er því ekkert til fyrirstöðu að prufa hnykkingar gegn þursabitum.

Það þarf ekki að velja rétta hnykkingu með nákvæmri skoðun

Yfirlitsgrein (5) sem skoðaði muninn á þegar meðferðaraðilar velja hnykkingu eða þegar hnykking er valin fyrirfram af rannsakanda fann engann mun á milli meðferða. Niðurstaðan bendir til að aðferð hnykkingarinnar skipti ekki máli. Hálsrannsókn fann ekki samræmi milli mældrar hreyfigetu milli hálsliða og hvaða hálsliða meðferðaraðila þótti stífur, svo að skoðun sem byggir á að finna slíkann mun er trúlega ekki áreiðanleg hvort eð er (6). Ég hef áður fjallað um hvort hægt sé að þreifa mis-stífa hryggjarliði út með höndunum eða öðrum aðferðum, stutta svarið er nei en langa svarið er hér. Ljóst er að slíkar aðferðir geta ólíklega stýrt vali á hnykkingarmeðferð.

—————————–

Þessar þrjár ranghugmyndir eru uppspretta slatta af kenningum í hnykklækningum sem miða að því að finna réttu hnykkinguna fyrir réttu manneskjuna. Það er þó ekkert sem styður við þetta annað en árhundruðir af hefðum og pælingum. Einungis nýlega hefur verið mögulegt að rannsaka þessar aðferðir með fullnægjandi hætti, en allar niðurstöður benda til hins sama: ætli maður sér að hnykkja þá getur maður bara hnykkt án þess að til þess komi skoðun eða greining.

Í næstu grein ætla ég að skoða áhrif hnykkinga á starfsemi líkamans, og hvort ástæða sé til að nota þær við meðferð. Í þriðja hluta mun ég fjalla um rannsóknir á áhrifum hnykkinga á bakverki.

Auglýsingar

Álagsmeiðsli #2 – Fyrstu viðbrögð við álagsmeiðslum

Rétt viðbrögð við álagsmeiðslum geta sparað mikinn tíma í endurhæfingu, ásamt því að hámarka frammistöðu íþróttamannsins bæði til lengri og skemmri tíma. Þó er mjög algengt að bæði íþróttamenn, þjálfarar, og sjúkraþjálfarar bregðist illa eða ekki við vægum álagsmeiðslum sem ekki hindra eðlilegar æfingar. Margir reyna að fela einkenni með verkjalyfjum eða einhverskonar nuddi til að “losa um” stífleikann.

Aðkoma sjúkraþjálfara að þessu er oft að beita einhverskonar verkjastillandi aðferðum, svosem nuddi, liðlosun, eða teygjum, til að bæta verkjastilla íþróttamanninn og halda honum og þjálfara hans ánægðum. Íþróttamaðurinn sjálfur leitar oftast í þessar meðferðir og halda að um einhverskonar lausn vandamálsins sé að ræða. Þeir eru ekki að velta fyrir sér orsökinni eða að vandamálið liggi dýpra heldur en “óþægindi í hnénu”. Slíkar verkjastillandi meðferðir eru þó skammgóður vermir í besta falli, því þær takast ekki á við orsök álagsmeiðslanna og gera ekkert til að viðhalda eða auka frammistöðu.

Rétt viðbrögð við álagsmeiðslum felast fyrst og fremst í að horfast í augu við raunveruleikann – álagsmeiðsli koma vegna þess að of mikið álag er á íþróttamanni. Ekki er nauðsynlegt að hætta æfingum alveg, og það er í flestum tilfellum ekki æskilegt. En nauðsynlegt er að minnka magn og/eða ákefð æfinga töluvert. Tapið af því að minnka æfingar á þessu stigi er lítið sem ekkert, því álagið þoldist ekki hvort eð er.

Á meðan æfingamagn er tímabundið minnkað er kjörinn tími til að vinna upp þá veikleika og áhættuþætti sem ýta undir álagsmeiðslin. Réttar liðleika og styrkjandi æfingar eru þar mikilvægur þáttur, úthald eða tækni geta einnig verið takmarkandi.

Aðkoma íþróttasjúkraþjálfara í þessu ferli ætti fyrst og fremst að felast í að nýta þekkingu hans til að stýra aðlögun æfinga og veikleikaþjálfunar. Íþróttasjúkraþjálfarinn er ráðgefandi um hve mikið viðkomandi ætti að geta æft, og kennir réttar æfingar eða tækni til að auka álagsþol íþróttamannsins.

Oft á keppnistímabilum er mest haldið í horfinu líkamlega og reynt að vinna veikleika rólegar upp svo hægt sé að viðhalda góðri frammistöðu í keppni. Undirbúningstímabilið ætti svo að nýtast til að full klára endurhæfinguna. Eftir endurhæfinguna hefur íþróttamaðurinn svo aukið álagsþol – hann þolir æfingarnar betur og getur því bætt líkamlega frammistöðu sína eðlilega í framhaldinu.

 

Álagsmeiðsli #1 – Orsakir álagsmeiðsla

Rannsóknir á álagsmeiðslum í íþróttum hafa sýnt að afreksíþróttum fylgja mjög mikil álagsmeiðsli. Fæst álagsmeiðsli valda þó tímatapi, þ.e.a.s. íþróttamaður sleppir ekki æfingum (1). Þeir sem æfa mest fá frekar álagsmeiðsli og eru því oft í betra líkamlegu formi (2) þrátt fyrir meiðslin.

Sem dæmi um hve algeng álagsmeiðsli eru , þá sögðust um 70% danskra fótboltamanna hafa fengið álagseinkenni í nára tímabilið á undan [3].

Svo virðist hinsvegar sem hvorki þjálfarar né leikmenn líti á þetta sem vandamál, eða eitthvað sem hægt er að breyta. Mjög margir íþróttamenn sem ég hitti lýsa t.d. álagstengdum náraverkjum svona: “svo er ég náttla alltaf stífur í náranum” eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Allir íþróttamenn (og manneskjur) hafa þolmörk hvað álag varðar. Álag í þessu samhengi er hve mikið er æft í viku, og á hve mikilli ákefð. Þegar íþróttamaður er kominn nálægt sínum þolmörkum fara einkenni eins og stífleiki í nára, viðkvæmni í hné, og stífleiki í baki að gera vart við sig. Séu þessi einkenni viðvarandi bendir það til þess að íþróttamaðurinn sé ekki að jafna sig á því álagi sem lagt er á hann – hann er í raun að æfa meira heldur en hann græðir á.

Íþróttamaður sem dansar á þessum þolmörkum er tifandi tímasprengja. Hann getur ekki aukið ákefð eða magn æfinga meira – og mun þar af leiðandi líklega ekki bæta líkamlega getu sína – og hann getur átt von á dvínandi frammistöðu eða fleiri meiðslum hvað á hverju.

Það eru þekktir áhættuþættir sem auka líkur á álagsmeiðslum. Margir þeirra eru breytanlegir og tengjast líkamlegu ástandi íþróttamannsins. Þeim mun fleiri áhættuþætti sem íþróttamaður hefur fyrir álagsmeiðslum þeim mun minna álag þarf til að meiðslin komi fram.

Álagsmeiðsl snúast því um tvennt – æfingaálagið sem íþróttamaður verður fyrir, og geta hans til að standast álagið. Jafnvægi ætti að vera milli álagsins og álagsþolsins til að íþróttamaður geti viðhaldið eða bætt frammistöðu sína með tímanum.

Úreltar Aðferðir #2 – Þreifingar á hreyfingum í hrygg

[Í þessari seríu fjalla ég um ýmsar aðferðir sem beitt er í sjúkraþjálfun en eru úreltar og afsannaðar. Sjá innganginn hér. Þessi færsla fjallar um þá hugmynd að hægt sé að meta hreyfanleika hrygg- og spjaldliða með fingrunum í gegnum húð, fitu, og vöðva sem yfir liðunum liggja.]

Hvað eru þreifingar á hreyfingum?

Algengt er að meðferðaraðilar telji sig geta þreifað út hreyfingu og hreyfigetu milli stakra hryggjarliða og spjaldliða. Þessar aðferðir eru kenndar, og þekking nemendans prófuð, án þess að hlutlaus mælikvarði sé notaður sem sýni fram á hvort mat kennarans og/eða nemandans sé rétt. Þ.e.a.s. án þess að vita hvort hægt sé að þreifa þetta, og þá hvort að þreifingin sé á annað borð rétt.

Þessar hreyfingar telja nú ekki nema örfáum gráðum. Reynt er að meta þær í gegnum þykka húð og þvert á tog vöðva, með fleiri atriðum sem trufla matið. Þar sem það er óstaðfest hvort þetta sé einusinni mögulegt, þá má segja að þetta sé hálfgerð athöfn þar sem tveir blindir menn tali saman um hvernig nýju föt keisarans séu á litinn hvorki kennarinn né nemandinn hafa raunverulega séð fötin. Til að útskrifast úr námi þarf svo væntanlega að sjá sama lit og kennarinn.

Þó þetta sé hálf-kjánaleg hugmynd virðist hún eiga rétt á sér, af því að hún virðist gera það sem hún á að gera. Rannsóknir á þessu hafa því oft byggt á því að meta hvort allir séu sammála einum „extra góðum“ þreifara, eða hvort allir séu ekki örugglega bara sammála, eða hvort menn séu ekki í það minnsta sammála sjálfum sér. En hvað segja rannsóknir sem hafa góðann samanburð eins og röntgen eða sónar sem geta raunverulega staðfest hvað verið er að þreifa?

Spjaldliðir

Erfitt er að þreifa út nákvæma staðsetningu beinlandamæra í kringum spjaldhrygg (1), og þá er eingöngu verið að mæla hve nákvæmlega meðferðaraðilar geta fundið rétta staðsetningu beina miðað við sónarmyndatöku. Það kemur í ljós að skekkjan er um 20 mm (sem er aðeins betra en í barnaleiknum þar sem maður á að næla hala á asna með bundið fyrir augun). Hreyfigetan í spjaldliðum sem gefa verk er mæld í örfáum gráðum, milli 1,2° og 4,5° með miklum breytileika milli einstaklinga (2), þessar gráður nema því hreyfingu sem er vel innan við 10 mm og því langt undir skekkjumörkum þreifingarinnar á beinlandamærunum þarna. Þetta er trúlega sambærilegt við að heyra hvísl milli herbergja á meðan verið er að spila tónlist. Sama rannsókn sýnir einnig fram á að þótt hreyfingar spjaldliða séu öðruvísi milli þeirra sem gefa verki og hinna, er munurinn ekki í stærð hreyfingar.

Í ljósi þess kemur ekki á óvart að í fólki með spjaldliðsverki sýna klínískar prófanir á stöðu spjaldliða afbrigðilega stöðu fyrir hnykkingu, en eðlilega eftir hnykkingu þrátt fyrir að staða spjaldliða breytist nákvæmlega ekki neitt við hnykkinguna (3). Enda þyrfti breytingin á stöðu spjaldliða að nema einhverjum sentimetrum til að ná út fyrir skekkjumörk þessara klínísku prófa. Það er opin spurning hvað þessi próf eru þá annars að prófa.

Mjóhryggsliðir

Aftur kemur í ljós að erfitt er fyrir meðferðaraðila að finna réttan hryggjarlið (4) og tekst það einungis í rétt undir helmingi tilrauna. Það kemur því ekki á óvart að lítið samræmi sé milli athugana á hreyfigetu mjóhryggsliða milli fólks þó að hver meðferðaraðili sé nokkurn veginn sjálfum sér samkvæmur (5). Sama gildir um samræmi milli matsmanna varðandi snúningsgetu mjóbaksliða (6).

Hinsvegar eru fáar rannsóknir sem meta mjóbakshreyfingarþreyfingar með hlutlausri matsaðferð. Eina rannsóknin sem ég hef séð sem nálgast þetta notaði sónar til að meta snúning hryggjarliða út frá dýpt hliðlægra hrygghluta þeirra miðað við miðlæga hryggtindinn (7). Niðurstaðan var að skoðunin var í samræmi við sónarmyndatökuna. En því miður voru eingöngu þau hryggbil sem voru talin snúin við þreifingu mynduð. Breytingin á stöðu hryggjarliða við hnykkingu var um 0.5mm. Þannig var ekki metið hvort eingöngu þau bil sem metin voru sem illa starfandi væru með þennan mun, ekki metið hve lengi þessi breyting á stöðu varir, og engin gögn sem sýna að 0.5mm breyting á snúningi hryggjarliða skipti máli. Rannsóknarsniðið einfaldlega hentar ekki til að sannreyna þreyfinguna*.

Ætli maður sér að hnykkja mjóhrygg er óþarfi að standa í þessum þreifingum hvort eð er. Nóg er að vita að: 1) verkir séu innan við 16 daga gamlir 2) engin einkenni fyrir neðan hné 3) ágætur hreyfanleiki í mjöðmum, 4) hreyfiskerðing í baki (8).

Hálsliðir

Vel gengur fyrir meðferðaraðila að þreifa út efsta hálslið (9) svo það er strax eitthvað umfram hina staðina. Hinsvegar geta meðferðaraðilar ekki þreifað út mishreyfanleg liðbil í hálsi og þótt að hreyfanleiki milli bila aukist nokkuð við hálshnykkingar þá var engin tenging milli aukins hreyfanleika og útkomu meðferðar (10).

Til er ein þekkt leið til að gera þreifingu og hnykkingar á hálsliðum hnitmiðaðri og nákvæmari: að skera burt húð og vöðva fyrst (11)!

Ólíkt mjóhrygg eru ekki til þekktar ábendingar um hvenær hálshnykkingar eru gagnlegar (12).

Lokaorð:

Þetta efni er alls ekki nægilega vel rannsakað miðað við hvað þetta er mikið notað í klínísku starfi. Allar rannsóknir sem ég hef lesið benda hins vegar til þess sama: þreifing meðferðaraðila á hreyfingum hryggliða er óáreiðanleg og ónákvæm ef hún er aftengd verkjaupplifun viðskiptavinarins. Þessar hreyfingar sem verið er að þreifa eru hreinlega of litlar, og of mikið af truflunum frá öðrum vefjum til að þessi próf virki.  En þó þreifing á liðhreyfingum í hrygg sé úrelt aðferð er nóg til af öðrum aðferðum til að nota í staðinn með staðfest notagildi.

————————————————-

  • Fyrir forvitna um rannsóknarsniðið þá eru ýmsir gallar á rannsókninni. T.d. var ekki hægt að staðfesta að klíníska þreifingin væri breytt eftir meðferðina, vegna þess að öllum var hnykkt og eingöngu einn matsmaður var notaður. Enginn samanburðarhópur var og enginn var blindaður, enda er þessi rannsókn eingöngu svokölluð “pilot” rannsókn sem eru ætlaðar til að byggja grunn undir stærri rannsóknir, en ekki til að niðurstöður þeirra nýtist í klínísku starfi.

ATH: Þær skoðanir sem hér eru hafðar frammi eru mínar eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir Atlas Endurhæfingar. Færslurnar eru skrifaðar til fróðleiks og gamans en jafngilda ekki, og koma ekki í staðinn fyrir, ráðleggingar heilbrigðisstarfsmanns. Eigir þú við heilsufarsvandamál að stríða skaltu ráðfæra þig við heilbrigðisstarfsmann.

 

Úreltar Aðferðir #1 – Hljóðbylgjur

Í þessari seríu fjalla ég um úreltar og afsannaðar aðferðir sjúkraþjálfara sem enn eru í notkun. Endilega lesið innganginn fyrir þessa seríu ef þið hafið ekki nú þegar gert það.

Það er mjög viðeigandi að hefja þessa seríu á hljóðbylgjum, því þær hafa verið ræddar talsvert á Twitter undanfarið. Uppruni þeirra er í seinni heimsstyrjöldinni þegar menn komust að því að hljóðbylgjurnar notaðar í hernaðarskyni gátu hitað sjó og drepið í honum fiska. Menn fóru þá að nota hljóðbylgjur á mannavefi í þeirri von að stuðla að gróanda í vefjum.

Hljóðbylgjur hita vefi og þar af leiðandi auka blóðflæði. Þær auka virkni frumna og hraða efnaskiptum staðbundið. Hljómar vel á pappír svo sem, en er það skortur á blóðflæði sem hamlar gróandanum? Eru hljóðbylgjur besta leiðin til að auka blóðflæði til vefja? Almenn líkamsrækt, að hækka púlsinn, eykur efnaskiptahraða og blóðflæði til vefja. Gufubað hitar allan mannslíkamann en ekki eingöngu svæði á stærð við tíkall um 2-5cm fyrir neðan húð (1) . Hvers vegna ætti að nota hljóðbylgjur í 20 mínútur fyrir 5000 kr, þegar tími í sund með heitum potti og gufubaði kostar brotabrot af verðinu?

Klínískar rannsóknir og leiðbeiningar á hljóðbylgjum á manneskjum

Undanfarin ár hafa rannsóknir á hljóðbylgjum færst út í að skoða fjölbreyttari möguleika til að koma meira og meira af bylgjum í fólk, ýmist á styttri tíma (höggbylgjur) eða á lengri tíma (áfastir sjálfvirkir hljóðbylgjuhausar). Þessi þróun er trúlega til komin vegna þess að klínískar rannsóknir hafa ekki stutt við notkun hljóðbylgna.

Bestu sannanir sem eiga að leiðbeina klínísku starfi sjúkraþjálfara eru kerfisbundnar skoðanir (e. systematic review) og klínískar leiðbeiningar, þær síðari eru útbúnar í þeim tilgangi að bæta starf heilbrigðisstarfsfólks en þær fyrri til að draga saman niðurstöður margra rannsókna í eina stærri rannsókn.

Gerðar hafa verið kerfisbundnar athuganir á notagildi hljóðbylgna við algengum axlarmeinum, algengum hnéverkjum, og mjóbaksverkjum. Þær voru allar sammála um að notagildið er ekkert við þessum vandamálum (2, 3, 4).

Bandaríska sjúkraþjálfarafélagið gaf árið 2012 út ítarlegar vísindalega miðaðar klínískar leiðbeiningar um meðferð mjóbaksverkja. Þær minnast ekki einusinni á hljóðbylgjur (5) . Ráðleggingar breska sambandsins  um axlarmein taka fram að hljóðbylgjur geti hjálpað við kölkuðum sinum til skamms og millilangs tíma séu þær notaðar daglega í 3 vikur, og annan hvern dag í aðrar 3 vikur. Þetta gera 24 heimsóknir á 6 vikum sem myndu kosta yfir 90.000 kr, og óljóst hvaða áhrif þetta hefur á verki og starfsemi axlarinnar (6).

Rannsóknir sem styðja við notkun hljóðbylgna

Rannsóknir á dýrum eru gjarnan notaðar til að sýna fram á notagildi hljóðbylgna sem meðferðarform. Ein nýleg rannsókn skoðar áhrif hljóðbylgna á gróanda í vöðva sem skorinn er í sundur á mús. Gögn þeirra sýna fram á jákvæð áhrif þar sem lengri meðferðartími (fleiri dagar) hefur stigvaxandi jákvæð áhrif á styrk vöðvans 28 dögum eftir skaða (7). Gallinn við þessa rannsókn, er að tímaramminn (28 dagar) er talsvert styttri heldur en vanalegur tími gróanda fyrir áverka af þessari tegund, sem er amk 50 dagar í mús og lengist eftir því sem dýrið stækkar (8). Einnig er ekki skoðað hvernig vöðvinn jafnar sig í teygju, eingöngu í samdrætti og eingöngu í rannsóknarstofu eftir að dýrinu er fórnað. Rannsóknir á dýrum þar sem um beinan skaða, sár og skurði, er að ræða hafa almennt sýnt fram á besta árangur hljóðbylgna. Yfirleitt er þá um einhverja daga af tímasparnaði að ræða og krefst stífrar meðferðar daglega með aðkomu sérþjálfaðs meðferðaraðila. Skaðar af þessari tegund eru óalgengir og eiga sér stað í slysum eins og bílslysum og vinnuslysum en sjaldnar í íþróttum. Svona rannsóknir geta gefið vísbendingar um virkni en eru ekki fullnægjandi til að hefja notkun á fólki.

Aðrar leiðir eru færar til að flýta fyrir bata eftir að vöðvi er skorinn í sundur, t.d. lyf og æfingar (9). Rannsókn sem vill sýna fram á notagildi hljóðbylgna þarf að hafa samanburðarhóp við aðrar virkar meðferðir, svo hægt sé að meta gæði meðferðar samanborið við aðra. Teygjur og æfingar vinna þennan samanburð, þær eru einfaldari, ódýrari og áhrifaríkari  heldur en hljóðbylgjur þar sem ef báðar meðferðir eru veittar samhliða er enginn munur á útkomunni (10).

Gróandi í vef er sjaldnast takmarkandi þáttur þegar kemur að viðskiptavinum sjúkraþjálfara. Meginþorri viðskiptavinanna er ekki að kljást við skammtíma afleiðingar af beinum skaða eins og þessar rannsóknir skoða, heldur afleiðingar af langvarandi álagi umfram burðarþol vefja. Vandamál sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt með ferlinu sem verið er að skoða í músunum.

Niðurstöður: Eigi hljóðbylgjur að gagnast þarf meðferðin að vera a.m.k. daglega í 20 mín á dag, og áhrif meðferðarinnar haldast lítið eða ekki til lengri tíma. Ef tilgangurinn er ekki að vinna á kölkuðum sinumsem krefst stífrar daglegrar meðferðar með óljósan langtímaárangur er betra að spara tíma sinn og peninga og skella sér bara í sund og gufuna eða pottinn.

Úreltar Aðferðir – Inngangur

Fagstétt sjúkraþjálfara stendur núna á krossgötum. Undanfarin ár hefur gagnreynd sjúkraþjálfun (enska: evidence based physiotherapy) verið að ryðja sér til rúms. Hugmyndin er einföld, að sjúkraþjálfarar vinni eftir bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni, í bland við eigin reynslu og þarfir viðskiptavinarins. Þegar ég heyrði þetta fyrst, snemma í grunnnáminu fannst mér varla að taka þyrfti þetta fram, enda hafði ég verið iðinn við lestur vísindagreina síðan í menntaskóla svo mér fannst ekki tiltökumál að starfandi heilbrigðisstarfsmenn störfuðu eftir bestu þekkingu. En ástæðan fyrir því að þessi hugmyndafræði þarf að ryðja sér til rúms en er ekki bara 100% sjálfsögð og sjálfgefin er einföld: sjúkraþjálfun hefur hingað til ekki verið byggð á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni.

Sjúkraþjálfarar vinna eftir ýmsum mýtum í bland við sterka þekkingu á líffærafræði og lífaflfræði hreyfikerfisins. Sjúkraþjálfarar þurfa að vera duglegir í að lesa og túlka vísindalega þekkingu, og stunda virka sjálfsgagnrýni á þær aðferðir og hugmyndafræði sem þeir nota. Þessi þáttur hefur að mínu mati ekki verið kenndur nægilega vel í grunnnáminu og starfsumhverfi sjúkraþjálfara á Íslandi gerir það fjárhagslega óhagstætt að vinna með vönduðum vinnubrögðum. Ég veit því ekki hve margir sjúkraþjálfarar uppfæra sína þekkingu, en ég veit fyrir víst að þær aðferðir sem ég fjalla um eru í notkun.

Margar aðferðirnar eru notaðar byggt á klínískri reynslu sem vitað er að er óáreiðanleg (1) og ógagnleg (2). Einnig er þekkt að góður árangur næst með því að fylgja bestu þekkingu (3). Saga blóðtöku í meðferðarskyni* er heillandi, ekki síst vegna þess að hún er ekki einsdæmi. Margar aðferðir hafa í gegnum tíðina orðið mjög algengar og mikið notaðar án þess að hafa neitt raunverulegt notagildi og jafnvel verið beinlínis skaðlegar. Mjög gjarnan hafa meðferðaraðilar mjög góða reynslu af aðferðum sem reynast síðar valda skaða. Þess vegna á besta vísindalega þekking hverju sinni að ráða starfi sjúkraþjálfara fyrst og fremst, og reynsla notuð til viðbótar.

Ég hef upplifað þetta af eigin raun. Þegar ég byrjaði fyrst að vinna talaði kollegi minn mjög blíðlega um laserpenna sem hann notaði mikið. Ein sterkustu rökin fannst mér vera að það tekur eingöngu um 10-20sek að beita meðferðinni, því ég vissi að takmarkaðar rannsóknir voru að baki. En, að hans ráðum fór ég að nota laser pennann, en svona pennar eru mikið notaðir. Mér fannst hann gefa góða raun og viðskiptavinirnir líka. Svo kom á daginn að penninn var bilaður, það kom enginn laser úr honum. En enginn sjúkraþjálfarana, né viðskiptavinanna, hafði fundið fyrir breytingu á áhrifum meðferðarinnar þegar hann bilaði! Góð reynsla af meðferð er ómarktæk, vegna þess að ómögulegt getur verið fyrir sjúkraþjálfara og viðskiptavini að sjá í gegnum lyfleysuáhrifin.

Þess vegna skrifa ég þessa seríu. Ég ætla fjalla um aðferðir og meðferðir sem eru notaðar í faginu en vísindi hafa sýnt fram á að virka annað hvort ekki eins og talið var að þær myndu virka, eða virka alls ekki.