Álagsmeiðsli #1 – Orsakir álagsmeiðsla

Rannsóknir á álagsmeiðslum í íþróttum hafa sýnt að afreksíþróttum fylgja mjög mikil álagsmeiðsli. Fæst álagsmeiðsli valda þó tímatapi, þ.e.a.s. íþróttamaður sleppir ekki æfingum (1). Þeir sem æfa mest fá frekar álagsmeiðsli og eru því oft í betra líkamlegu formi (2) þrátt fyrir meiðslin.

Sem dæmi um hve algeng álagsmeiðsli eru , þá sögðust um 70% danskra fótboltamanna hafa fengið álagseinkenni í nára tímabilið á undan [3].

Svo virðist hinsvegar sem hvorki þjálfarar né leikmenn líti á þetta sem vandamál, eða eitthvað sem hægt er að breyta. Mjög margir íþróttamenn sem ég hitti lýsa t.d. álagstengdum náraverkjum svona: “svo er ég náttla alltaf stífur í náranum” eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Allir íþróttamenn (og manneskjur) hafa þolmörk hvað álag varðar. Álag í þessu samhengi er hve mikið er æft í viku, og á hve mikilli ákefð. Þegar íþróttamaður er kominn nálægt sínum þolmörkum fara einkenni eins og stífleiki í nára, viðkvæmni í hné, og stífleiki í baki að gera vart við sig. Séu þessi einkenni viðvarandi bendir það til þess að íþróttamaðurinn sé ekki að jafna sig á því álagi sem lagt er á hann – hann er í raun að æfa meira heldur en hann græðir á.

Íþróttamaður sem dansar á þessum þolmörkum er tifandi tímasprengja. Hann getur ekki aukið ákefð eða magn æfinga meira – og mun þar af leiðandi líklega ekki bæta líkamlega getu sína – og hann getur átt von á dvínandi frammistöðu eða fleiri meiðslum hvað á hverju.

Það eru þekktir áhættuþættir sem auka líkur á álagsmeiðslum. Margir þeirra eru breytanlegir og tengjast líkamlegu ástandi íþróttamannsins. Þeim mun fleiri áhættuþætti sem íþróttamaður hefur fyrir álagsmeiðslum þeim mun minna álag þarf til að meiðslin komi fram.

Álagsmeiðsl snúast því um tvennt – æfingaálagið sem íþróttamaður verður fyrir, og geta hans til að standast álagið. Jafnvægi ætti að vera milli álagsins og álagsþolsins til að íþróttamaður geti viðhaldið eða bætt frammistöðu sína með tímanum.

Úreltar Aðferðir #2 – Þreifingar á hreyfingum í hrygg

[Í þessari seríu fjalla ég um ýmsar aðferðir sem beitt er í sjúkraþjálfun en eru úreltar og afsannaðar. Sjá innganginn hér. Þessi færsla fjallar um þá hugmynd að hægt sé að meta hreyfanleika hrygg- og spjaldliða með fingrunum í gegnum húð, fitu, og vöðva sem yfir liðunum liggja.]

Hvað eru þreifingar á hreyfingum?

Algengt er að meðferðaraðilar telji sig geta þreifað út hreyfingu og hreyfigetu milli stakra hryggjarliða og spjaldliða. Þessar aðferðir eru kenndar, og þekking nemendans prófuð, án þess að hlutlaus mælikvarði sé notaður sem sýni fram á hvort mat kennarans og/eða nemandans sé rétt. Þ.e.a.s. án þess að vita hvort hægt sé að þreifa þetta, og þá hvort að þreifingin sé á annað borð rétt.

Þessar hreyfingar telja nú ekki nema örfáum gráðum. Reynt er að meta þær í gegnum þykka húð og þvert á tog vöðva, með fleiri atriðum sem trufla matið. Þar sem það er óstaðfest hvort þetta sé einusinni mögulegt, þá má segja að þetta sé hálfgerð athöfn þar sem tveir blindir menn tali saman um hvernig nýju föt keisarans séu á litinn hvorki kennarinn né nemandinn hafa raunverulega séð fötin. Til að útskrifast úr námi þarf svo væntanlega að sjá sama lit og kennarinn.

Þó þetta sé hálf-kjánaleg hugmynd virðist hún eiga rétt á sér, af því að hún virðist gera það sem hún á að gera. Rannsóknir á þessu hafa því oft byggt á því að meta hvort allir séu sammála einum „extra góðum“ þreifara, eða hvort allir séu ekki örugglega bara sammála, eða hvort menn séu ekki í það minnsta sammála sjálfum sér. En hvað segja rannsóknir sem hafa góðann samanburð eins og röntgen eða sónar sem geta raunverulega staðfest hvað verið er að þreifa?

Spjaldliðir

Erfitt er að þreifa út nákvæma staðsetningu beinlandamæra í kringum spjaldhrygg (1), og þá er eingöngu verið að mæla hve nákvæmlega meðferðaraðilar geta fundið rétta staðsetningu beina miðað við sónarmyndatöku. Það kemur í ljós að skekkjan er um 20 mm (sem er aðeins betra en í barnaleiknum þar sem maður á að næla hala á asna með bundið fyrir augun). Hreyfigetan í spjaldliðum sem gefa verk er mæld í örfáum gráðum, milli 1,2° og 4,5° með miklum breytileika milli einstaklinga (2), þessar gráður nema því hreyfingu sem er vel innan við 10 mm og því langt undir skekkjumörkum þreifingarinnar á beinlandamærunum þarna. Þetta er trúlega sambærilegt við að heyra hvísl milli herbergja á meðan verið er að spila tónlist. Sama rannsókn sýnir einnig fram á að þótt hreyfingar spjaldliða séu öðruvísi milli þeirra sem gefa verki og hinna, er munurinn ekki í stærð hreyfingar.

Í ljósi þess kemur ekki á óvart að í fólki með spjaldliðsverki sýna klínískar prófanir á stöðu spjaldliða afbrigðilega stöðu fyrir hnykkingu, en eðlilega eftir hnykkingu þrátt fyrir að staða spjaldliða breytist nákvæmlega ekki neitt við hnykkinguna (3). Enda þyrfti breytingin á stöðu spjaldliða að nema einhverjum sentimetrum til að ná út fyrir skekkjumörk þessara klínísku prófa. Það er opin spurning hvað þessi próf eru þá annars að prófa.

Mjóhryggsliðir

Aftur kemur í ljós að erfitt er fyrir meðferðaraðila að finna réttan hryggjarlið (4) og tekst það einungis í rétt undir helmingi tilrauna. Það kemur því ekki á óvart að lítið samræmi sé milli athugana á hreyfigetu mjóhryggsliða milli fólks þó að hver meðferðaraðili sé nokkurn veginn sjálfum sér samkvæmur (5). Sama gildir um samræmi milli matsmanna varðandi snúningsgetu mjóbaksliða (6).

Hinsvegar eru fáar rannsóknir sem meta mjóbakshreyfingarþreyfingar með hlutlausri matsaðferð. Eina rannsóknin sem ég hef séð sem nálgast þetta notaði sónar til að meta snúning hryggjarliða út frá dýpt hliðlægra hrygghluta þeirra miðað við miðlæga hryggtindinn (7). Niðurstaðan var að skoðunin var í samræmi við sónarmyndatökuna. En því miður voru eingöngu þau hryggbil sem voru talin snúin við þreifingu mynduð. Breytingin á stöðu hryggjarliða við hnykkingu var um 0.5mm. Þannig var ekki metið hvort eingöngu þau bil sem metin voru sem illa starfandi væru með þennan mun, ekki metið hve lengi þessi breyting á stöðu varir, og engin gögn sem sýna að 0.5mm breyting á snúningi hryggjarliða skipti máli. Rannsóknarsniðið einfaldlega hentar ekki til að sannreyna þreyfinguna*.

Ætli maður sér að hnykkja mjóhrygg er óþarfi að standa í þessum þreifingum hvort eð er. Nóg er að vita að: 1) verkir séu innan við 16 daga gamlir 2) engin einkenni fyrir neðan hné 3) ágætur hreyfanleiki í mjöðmum, 4) hreyfiskerðing í baki (8).

Hálsliðir

Vel gengur fyrir meðferðaraðila að þreifa út efsta hálslið (9) svo það er strax eitthvað umfram hina staðina. Hinsvegar geta meðferðaraðilar ekki þreifað út mishreyfanleg liðbil í hálsi og þótt að hreyfanleiki milli bila aukist nokkuð við hálshnykkingar þá var engin tenging milli aukins hreyfanleika og útkomu meðferðar (10).

Til er ein þekkt leið til að gera þreifingu og hnykkingar á hálsliðum hnitmiðaðri og nákvæmari: að skera burt húð og vöðva fyrst (11)!

Ólíkt mjóhrygg eru ekki til þekktar ábendingar um hvenær hálshnykkingar eru gagnlegar (12).

Lokaorð:

Þetta efni er alls ekki nægilega vel rannsakað miðað við hvað þetta er mikið notað í klínísku starfi. Allar rannsóknir sem ég hef lesið benda hins vegar til þess sama: þreifing meðferðaraðila á hreyfingum hryggliða er óáreiðanleg og ónákvæm ef hún er aftengd verkjaupplifun viðskiptavinarins. Þessar hreyfingar sem verið er að þreifa eru hreinlega of litlar, og of mikið af truflunum frá öðrum vefjum til að þessi próf virki.  En þó þreifing á liðhreyfingum í hrygg sé úrelt aðferð er nóg til af öðrum aðferðum til að nota í staðinn með staðfest notagildi.

————————————————-

  • Fyrir forvitna um rannsóknarsniðið þá eru ýmsir gallar á rannsókninni. T.d. var ekki hægt að staðfesta að klíníska þreifingin væri breytt eftir meðferðina, vegna þess að öllum var hnykkt og eingöngu einn matsmaður var notaður. Enginn samanburðarhópur var og enginn var blindaður, enda er þessi rannsókn eingöngu svokölluð “pilot” rannsókn sem eru ætlaðar til að byggja grunn undir stærri rannsóknir, en ekki til að niðurstöður þeirra nýtist í klínísku starfi.

ATH: Þær skoðanir sem hér eru hafðar frammi eru mínar eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir Atlas Endurhæfingar. Færslurnar eru skrifaðar til fróðleiks og gamans en jafngilda ekki, og koma ekki í staðinn fyrir, ráðleggingar heilbrigðisstarfsmanns. Eigir þú við heilsufarsvandamál að stríða skaltu ráðfæra þig við heilbrigðisstarfsmann.

 

Æfingar í endurhæfingu – Þær virka!

Rétt valdar æfingar og skipulögð þjálfun eru ótrúlega öflugt tól til að hafa áhrif á mannslíkamann. Flest öll lifum við þannig lífsstíl að hreyfingar okkar eru mjög einhæfar og þjálfa eða viðhalda sumum vöðvum og hreyfingum betur en öðrum. Við þróum því flest með okkur einhvers konar misstyrk sem hefur svo áhrif á hvernig við hreyfum okkur (1).

Með því að greina hreyfingar einstaklings er hægt að finna veikleikana í hreyfikerfinu. Veikleika sem geta leitt til meiðsla í versta falli (2), en skerða frammistöðu i besta falli. Sá sem fer í gegnum virka endurhæfingu, með vel völdum hip extension stretch rotatedæfingum til að þjálfa upp veikleikana verður ekki bara með minni verki (3) og betri frammistöðu (4) heldur verður viðkomandi betur til þess fallinn að standast álagið sem olli verkjunum.

Sjálfsmeðferð og æfingar eru einnig óneitanlega mun praktískari meðferðarform heldur en rafbylgjumeðferðir, laserar og hljóðbylgjur, þar sem mun færri meðferðarskipti þarf til að veita meðferðina. Einstaklingur sem sinnir sjálfsmeðferð getur ákveðið sjálfur í samráði við sjúkraþjálfara hve stíft hann þjálfar og þannig haft áhrif á hraða og erfiðleikastig endurhæfingarinnar. Undarlegustu hreyfingar og stellingar geta verið ótrúlega erfiðar sé maður með veikleika í hreyfikerfinu, og það er verðlaunandi þegar styrkurinn jafnast út og ánægjulegt að finna þessar hreyfingar verða fyrst mögulegar, svo auðveldar.

——————–

ATH: Þær skoðanir sem hér eru hafðar frammi eru mínar eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir annarra sjúkraþjálfara Atlas Endurhæfingar. Færslurnar eru skrifaðar til fróðleiks og gamans en jafngilda ekki, og koma ekki í staðinn fyrir, ráðleggingar heilbrigðisstarfsmanns. Eigir þú við heilsufarsvandamál að stríða skaltu ráðfæra þig við heilbrigðisstarfsmann.